Fréttastofa greindi frá því í gær að oddvitar Sósíalistaflokks, Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins hafi fundað til að athuga hvort þar væri samstarfsflötur. Að loknum fundi sögðu oddvitarnir að næsta mál á dagskrá væri að kynna hugmyndina fyrir baklandi flokkanna.
Fréttastofa hefur reynt að ná á oddvitum flokkanna í allan morgun en án árangurs. Aðeins Líf Magneudóttir, oddviti VG, svaraði skilaboðum fréttastofu sem voru á þá leið að ekkert nýtt væri að frétta.
Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins.
„Ég sendi þessum ágætu kollegum mínum auðvitað góðar kveðjur inn í þessar viðræður en ég hef lýst því yfir áður að þetta er sá meirihluti sem mér hugnast síst. Hann er auðvitað samsettur flokkum sem eru hvað fjærst Sjálfstæðisflokknum í skoðunum og ég óttast að það muni ekki nást árangur í mikilvægum baráttumálum á næstu mánuðum undir stjórn fimm flokka vinstri meirihluta.“
Síðastliðinn föstudag og laugardag áttu Framsókn, Viðreisn, Flokkur Fólksins og Sjálfstæðisflokkur í óformlegum viðræðum. Hildur segir að engin ástæða hafi verið til að ætla að þau myndu ekki ná saman enda ættu þessir flokkar málefnalega samleið og engin ágreiningsmál hefðu komið upp. Hugmyndin um þennan meirihluta fór út um þúfur þegar stjórn og bakland Flokks fólksins lýsti því yfir að þau vildu ekki leiða Sjálfstæðisflokk til valda. Hildur segir að mest sé um vert að sameinast um málin en ekki útilokunarstjórnmál.
„Ég hef vandað mig í samskiptum við aðra flokka og reynt að sýna að það sé gott að starfa með mér sem oddvita og að ég sé einstaklingur sem er hægt að treysta á og vinna með. Ég held það sé erfitt að draga fram þann oddvita í borgarstjórn í öðrum flokki sem myndi halda öðru fram þannig að það er auðvitað sérkennilegt að vera í þessari stöðu. Vegna einhverra atburða sem varða ekki okkur í borgarstjórn er borgarstjórnarflokkur Flokks fólksins skyndilega að útiloka samstarf við okkur, ekki vegna þess að þau telji ekki gott að starfa með okkur eða að þau eigi ekki málefnalegan samhljóm með okkur eða að við getum ekki unnið góðum málum brautargengi í borginni heldur vegna einhverrar viðkvæmni vegna umræðu í þinginu eða morgunblaðinu sem auðvitað koma okkur ekki við.“
Henni finnist sérkennilegt að Flokkur fólksins vilji fara í vi

nstri meirihluta út frá málefnastöðu.
„Flokkur fólksins hefur verið að berjast gegn óskynsemi í stafrænni umbreytingu borgarinnar, hefur verið að berjast gegn umferðartöfunum og talað fyrir húsnæðisuppbyggingu og áfram mætti telja. Að hann ætli sér að fara í samstarf með flokkum sem munu engu breyta í þessum efnum, það er auðvitað mjög skrítið sérstaklega vegna þess að ástæðurnar sem búa að baki eru ekki sérstaklega málefnalegar.“