Enn gýs á þremur stöðum í eldgosinu við Sundhnúksgíga og hefur virknin verið stöðug í nótt. Mest er hún sögð við miðbik gossprungunnar og hafa engir jarðskjálftar mælst í nótt.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir yfirvöld fylgjast grannt með stöðunni.
„Það bunkast upp hraunið og bunkast upp við hliðina á varnargarðinum. Það er gott að það skríður ekki hratt áfram en það að hraunið bunkist upp gerir það að verkum að það þarf að fylgjast mjög vel með framvindunni.“
Starfsmenn Landsnets hafa unnið hörðum höndum við að vernda mikilvæga innviði í Svartsengi eftir að gosið hófst. Svartsengislínan er úti eftir að leiðarar slitnuðu en reynt er að vernda möstur.
„Okkur gekk bara vel í gærkvöldi og í nótt að verja þessi tvö möstur. Það gekk vel, við unnum það verk með brunavörnum Suðurnesja. Þeir kældu hraunin í kringum möstrin. Ástandið er samt enn þá pínu krítískt,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets.
Það vakti mikla athygli í gær þegar tilkynnt var að stefnt væri að opnun Bláa lónsins næsta föstudag. Bílaplan lónsins er allt undir hrauni og aðgengi takmarkað.
„Auðvitað er okkar reynsla sú að mikið og margt getur gerst. Þess vegna erum við að horfa til þess að ef að þróun mála og sér í lagi ef að þróun gossins verður með viðeigandi hætti þá værum við allavega tilbúin að geta opnað á föstudaginn,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu.
Verið sé að skoða aðgengismál, til að mynda hvort hægt sé að nota safnstæði og flytja gesti með rútum.
„Við gerum aldrei neitt nema með fullu samþykki og í samstarfi við yfirvöld. Staðan þarf auðvitað að vera viðunandi.“