Í umfjöllum málið í Los Angeles Times segir að listamennirnir vilji með gjörningnum vekja athygli því að almenningsgarðurinn sé orðinn að miðstöð vímuefna, fíknar og örvæntingar.
Styttan var reist í garðinum árið1935 og kallast Promotheus eða Prómeþeifur á íslensku. Listamaðurinn, Nína Sæmundsson, var íslensk kona sem starfaði og bjó stærstan hluta ævi sinnar í Bandaríkjunum. Hún var myndhöggvari og listmálari.
Þekktust er hún fyrir höggmyndir sínar, þar á meðal Sofandi drengur og Móðurást sem er að finna í Lækjargötu. Þá er hún einnig þekkt fyrir höggmynd sína Afrekshug sem stendur yfir aðalanddyri Waldorf-Astoria hótelsins í New York. Afsteypu styttunnar má finna í miðbæjargarðinum á Hvolsvelli.
Afsteypa Hafmeyju Nínu frá 1948, sem afhjúpuð var á Tjörninni í Reykjavík 1959, var sprengd í loft upp á nýársdag 1960. Ný bronsafsteypa, gjöf frá Smáralind verslunarmiðstöðinni, var sett upp á Tjörninni 2014.
Í umfjöllun Los Angeles Times um breytinguna á verkinu er haft eftir listamönnunum S.C. Mero og Wild Life að þau hafi viljað vekja athygli á slæmri stöðu garðsins. Við styttuna settu þau veggplatta þar sem þau útskýra breytinguna. Í stað þess að lýsa Promotheus sem guði framsýninnar, elds og sem kenndi mannfólki að beisla eldinn segir á plattanum að hann hafi gefið mannfólki eldinn svo það geti „nýtt sér fentanýl, krakk-kókaín og metamfetamín.“
Í umfjölluninni segir enn fremur að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem skemmdarverk hafa verið unnin á styttunni. Reglulega hafi verið brotin af henni hluti handar eða fótar. Þá hafi aðrar styttur í garðinum einnig fengið sömu meðferð.