Lögregla í Svíþjóð vill meina að hinn 35 ára Rickard Andersson hafi verið árásarmaðurinn sem banaði tíu námsmönnum í Campus Risbergska-skólanum í Örebro í gær.
Sænskir fjölmiðlar greina frá nafni mannsins á þriðja tímanum í dag, meðal annars Aftonbladet og Expressen. Staðfest er að ellefu manns hafi látist í skotárásinni í gær og var Andersson einn þeirra. Hann er talinn hafa svipt sig lífi eftir árásina.
Lögregla í Örebro fékk fyrst ábendingu um árásina í Campus Risbergska klukkan 12:33 að staðartíma í gær. Um er að ræða skóla sem áður var framhaldsskóli en þar hefur að undanförnu verið starfrækt fullorðinsfræðsla.
Andersson hefur í fjölmiðlum verið lýst, af fólki sem þekkti hann, sem einrænum manni sem hafi ekki verið starfandi á vinnumarkaði. Lögregla girti í gær af svæði í kringum íbúð þar sem hann bjó og lagði hald á ýmsa hluti.
Aftonbladet greindi frá því í gær að Andersson hafi skipt um nafn fyrir um átta árum síðan. Hann var með hreina sakaskrá og sagði lögregla að hann hefði ekki áður komist í kast við lögin.
Lögregla segir hann hafa notast við byssu sem hann hafi verið með leyfi fyrir.