Eftir fjóra sigurleiki í röð máttu Sandra Erlingsdóttir og stöllur hennar í Metzingen þola 11 marka tap gegn Íslendingaliði Blomberg-Lippe í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Heimakonur í Metzingen skoruðu fyrsta mark leiksins í leik kvöldsins, en það var í eina skiptið í leiknum sem þær höfðu forystuna. Andrea Jacobsen og stöllur hennar í Blomberg-Lippe skoruðu næstu fjögur mörk og litu aldrei um öxl eftir það.
Gestirnir í Blomberg-Lippe náðu mest sex marka forystu í fyrri hálfleik og staðan var 9-13 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Yfirburðir gestanna héldu svo áfram í seinni hálfleik og liðið vann að lokum öruggan 11 marka sigur, 18-29.
Blomberg-Lippe situr nú í 3.-4. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 15 leiki, jafn mörg og Thuringer. Metzingen situr hins vegar í sjöunda sæti með 14 stig.