Gunnlaugur Árni Sveinsson og Svíinn Algot Kleen urðu að sætta sig við tvö töp í dag, á öðrum degi Bonallack-bikarsins í golfi. Staðan er engu að síður jöfn í keppninni, sem er á milli úrvalsliðs Evrópu og úrvalsliðs Asíu og Eyjaálfu.
Evrópa vann tvo leiki í fjórmenningi í dag en Asía/Eyjaálfa þrjá. Gunnlaugur og Kleen léku gegn Ahn Minh Nguyen og Kartik Singh, og endaði leikurinn 4/2. Gunnlaugur og Kleen höfðu náð að jafna metin með því að vinna 14. og 16. holu en töpuðu svo tveimur síðustu holunum.
Það var einnig mikil spenna í leik þeirra í fjórbolta og jafnt á öllum holum nema einni. Evrópa vann hins vegar þrjá leiki í fjórboltanum og Asía/Eyjaálfa tvo, svo staðan í keppni liðanna í dag var 5-5 rétt eins og í gær.
Það er því mikil spenna fyrir morgundeginum en þá fara fram tólf einvígi og því alls tólf stig í boði. Gunnlaugur Árni, sem er fyrsti Íslendingurinn til að keppa á þessu móti, mætir þar öðrum mótherja sinna í dag, Kartik Singh.