Norska úrvalsdeildarfélagið Bodö/Glimt ætlar að gefa allar tekjur sínar af Evrópudeildarleik sínum á móti ísraelska félaginu Maccabi Tel Aviv.
Peningurinn mun fara í söfnun Rauða krossins vegna neyðaraðstoðar á Gaza svæðinu.
Norska félagið ætlar að gefa samtals 735 þúsund norskar krónur sem samsvarar rúmum níu milljónum íslenskra króna.
Bodö/Glimt lenti á móti Maccabi Tel Aviv í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og vann þar 3-1 sigur. Tæplega fjögur þúsund manns mættu á Aspmyra leikvanginn í Bodö en leikurinn fór fram 23. janúar síðastliðinn.
„Við höfum sagt það áður og við segjum það aftur. Glimt getur ekki og mun ekki, líta fram hjá þeim hörmungum og brotum á alþjóðlegum reglum sem eiga sér stað annars staðar í heiminum,“ segir í bréfi frá Bodö/Glimt sem norska ríkisútvarpið segir frá.
Í umræddu bréfi er stuðningsmönnum félagsins og lögreglu einnig þakkað fyrir það að fór allt vel fram þegar leikurinn var spilaður.
„Núna þegar við höfum haft tækifæri til að anda og getum horft til baka á sanngjarnan heimasigur þá sjáum við líka að leikurinn fór fram án nokkurra alvarlega atvika. Það er ekki gefið,“ segir í fyrrnefndu bréfi.
Hlé var gert á stríðinu á Gaza-svæðinu þegar skrifað var undir vopnahlé á milli Ísraels og Hamasamtakanna.