Knattspyrnudeild ÍA hefur tilkynnt breytingar á leikmannahópi karlaliðsins fyrir næsta tímabil og greint frá að fimm leikmenn séu á förum frá félaginu.
Leikmennirnir sem um ræðir eru: Arnleifur Hjörleifsson, Árni Salvar Heimisson, Guðfinnur Þór Leósson, Hlynur Sævar Jónsson og Kristófer Áki Hlinason.
Hlynur Sævar var sá eini sem lék að staðaldri með ÍA á síðustu leiktíð en hann spilaði 21 leik í Bestu deildinni og Guðfinnur kom við sögu í 9 leikjum. Arnleifur var í láni hjá Njarðvík, Árni hjá Grindavík og Kristófer hjá Víkingi í Ólafsvík.
„Þeir hafa allir lagt sitt af mörkum fyrir ÍA á undanförnum árum og kveðja nú félagið í bili. Þeir hafa verið góðir fulltrúar félagsins innan sem utan vallar.
Við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framlag og óskum þeim velfarnaðar í næstu verkefnum á þeirra knattspyrnuferli,“ segir í yfirlýsingu félagsins.