Demókratar unnu þrjá afgerandi kosningasigra vestanhafs í gær og eru margir repúblikanar á því máli að þeir þurfi að líta í eigin barm fyrir þingkosningarnar sem fara fram eftir eitt ár.
Abigail Spanberger í Virginíu og Mikie Sherrill í New Jersey sigruðu báðar kosningar til ríkisstjóra með yfir þrettán prósentustiga mun.
Þær eru báðar miðjusinnaðir stjórnmálamenn og eru andvígar Trump. Í kosningabaráttum sínum báru þær keppinauta sína saman við Trump og MAGA-hreyfinguna, sem eiga undir högg að sækja í ríkjunum tveimur.
Þá var sósíalistinn Zohran Mamdani kjörinn borgarstjóri New York-borgar.
Sumir sérfræðingar telja að þessir sigrar geti blásið nýju lífi í Demókrataflokkinn þótt enn séu fyrir hendi áskoranir og ágreiningur innan flokksins um framtíðarstefnu hans – á hann að sækja á miðjuna eða lengra til vinstri?
Trump óvinsæll í ríkjunum
Niðurstöður ríkisstjórakosninganna eru ekki óvæntar, enda um ríki að ræða þar sem demókratar eru fleiri en repúblikanar. Kannanir höfðu spáð fyrir um úrslitin, en ekki um það hversu afgerandi þau yrðu.
42% íbúa New Jersey og 39% íbúa Virginíu sögðust vera ánægðir með störf Trumps. Í báðum ríkjunum voru tvisvar sinnum fleiri kjósendur sem sögðust kjósa til að sýna andstöðu við forsetann en stuðning.
Margir rebúblikanar hafa tjáð sig um niðurstöður kosninganna og segja að nú séu blikur á lofti hjá flokknum og að honum beri að taka þessum niðurstöðum alvarlega.
Auk þess má sjá að mun fleiri demókratar lögðu leið sína á kjörstað en repúblikanar, sem gefur til kynna að flokkurinn sé betur í stakk búinn fyrir komandi þingkosningar.
Aukinn meðbyr í flokknum
Kosningarnar bentu einnig til breyttra fylkinga meðal kjósenda. Stuðningur við demókrata jókst meðal ungs fólks og minnihlutahópa, sérstaklega í New Jersey og Virginíu.
Flokkurinn vann einnig sigra víðar. Í Kaliforníu var samþykkt að heimila nýja kjördæmaskipan sem gæti tryggt Demókrötum fimm aukasæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Í Pennsylvaníu hélt flokkurinn meirihluta sínum í hæstarétti ríkisins og í Georgíu unnu tveir demókratar sæti í ríkisnefnd sem fer með eftirlit með orkumálum.
Úrslitin eru talin sýna aukinn meðbyr meðal demókrata á sama tíma og repúblikanar standa frammi fyrir nýjum áskorunum undir forystu Trumps.