Siggeir Ævarsson skrifar
Íslendingahersveit Kolstad í norsku úrvalsdeildinni í handbolta bar sigur úr býtum í toppslag deildarinnar þegar liðið tók á móti toppliði Elverum en lokatölur leiksins urðu 32-29.
Ríkjandi meistarar Koldstad náðu upp góðu forskoti í leiknum og voru komnir með sjö marka forskot þegar best lét. Leikmenn Elverum neituðu þó að leggja árar í bát en munurinn einfaldlega orðinn of mikill og Kolstad minnkar því forskot Elverum á toppi deildarinnar í eitt stig þegar bæði lið hafa leikið 17 leiki.
Markahæstur í liði Kolstad var Simen Ulstad Lyse með níu mörk en Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði flest mörk Íslendinganna í dag, fimm talsins. Benedikt Gunnar Óskarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu sitt markið hvor og Benedikt bætti við þremur stoðsendingum. Arnór Snær Óskarsson komst ekki á blað í dag en lagði upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína.