Karlmaður á þrítugsaldri var skotinn til bana í bílastæðahúsi í miðborg sænsku borgarinnar Norrköping í gærkvöldi. Sænskir fjölmiðlar segja að hinn látni sé rapparinn Gaboro sem hafi verið með tengsl við glæpagengi í landinu.
Í frétt sænska ríkisútvarpsins segir að lögreglu hafi borist tilkynning um skotárásina upp úr klukkan 20 í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum eigi að hafa heyrst fjögur til sex skothljóð á vettvangi. Enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins.
Talsmaður lögreglunnar segir að maðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Heimildir SVT herma að hinn látni sé rapparinn Gaboro sem hafi verið áberandi í rappsenunni í Norrköping. Hann hefur meðal annars komið fram í þáttum á SVT, er með milljónir hlustana á Spotify, en hefur einnig sagður hafa verið með náin tengsl við glæpasamtök í borginni.
Mats Pettersson hjá lögregunni í Norrköping segir að lögregla sé meðvituð um að myndband sé í dreifingu sem er sagt sýna frá morðinu. Þó sé ekki hægt að slá því föstu að svo stöddu að myndbandið sé ósvikið.
Rapparinn Gaboro hét Ninos Moses Khouri réttu nafni, var fæddur árið 2000 og af sýrlenskum uppruna. Hann sló í gegn árið 2022 með laginu BOGOTA.
Þetta er ekki fyrsta morðið á þekktum sænskum rappara sem er sagður vera með tengsl við undirheimana. Þannig var rapparinn C. Gambino skotinn til bana í Gautaborg í júní síðastliðinn og rapparinn Einar í Stokkhólmi árið 2021.