Bresk-kýpverska söngkonan og Love Island stjarnan Antigoni Brixton verður fulltrúi Kýpur í Eurovision árið 2026 í Vín. Keppnin fer fram í sjötugasta skipti og er Antigoni fyrsti keppandinn sem tilkynntur er til leiks.
Antigoni sem er meðal annars þekkt fyrir þátttöku sína í bresku raunveruleikaþáttunum Love Island árið 2022 er 29 ára söngkona. Ekki hefur verið upplýst hvaða lag hún mun syngja.
Söngkonan er af grískum og kýpverskum uppruna og hefur lýst því yfir að það sé draumur hennar að syngja í Eurovision. Hún kom inn með stormi inn í bresku raunveruleikaþættina á sínum tíma í seríu með stórstjörnum líkt og Gemmu Owen, Ekin-Su og Davide.
Strákarnir voru spenntir þegar söngkonan mætti í villuna.
Antigoni reið þó ekkert sérlega feitum hesti frá seríunni þar sem markmiðið er að finna ástina í heitum sólarvindi Mallorca. Hún fór á stefnumót með Dami, Davide og Jay og valdi ítalski folinn Davide hana á átjánda degi.
Eftir strauma þeirra á milli valdi hún hinsvegar að deita keppanda að nafni Charlie. Það fór ekkert sérstaklega mikið fyrir Antigoni í þáttunum og ákváðu strákarnir á ástareyjunni að henda henni af eyjunni rétt rúmlega viku eftir að hún mætti sem svokölluð bomba inn í þættina.