„Hvað þýðir það að vera hótað að vera hent í sjóinn? Það er auðvitað ekkert annað en morðhótun,“ segir Jóhann Ásmundsson, sérfræðingur hjá veiðieftirliti Fiskistofu, í erindi sínu á ráðstefnu Háskólans á Akureyri um löggæslu og samfélagið.
Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafa fundið sig í aðstæðum þar sem talað hefur verið niður til þeirra, þar sem þeir upplifa útilokun eða mismunun, veist hefur verið að þeim með orðum og athöfnum og þær aðstæður komið upp þar sem þeir hafa upplifað þrúgun og andlegt ofbeldi.
Þetta sýna niðurstöður frumathugunar Fiskistofu á upplifun veiðieftirlitsmanna á vettvangi svo ekki verður um villst. Frumathugunina afréð Fiskistofa að gera í kjölfar ráðstefnu á vegum stofnunarinnar þar sem mikið var rætt um andlega heilsu, þrúgandi aðstæður eftirlitsmanna og flókna hluti á borð við áreitni sem eftirlitsmenn hafa sagt frá.
37.500 landanir í 60 höfnum
Jóhann Ásmundsson sagði frá niðurstöðum frumathugunarinnar á dögunum á ráðstefnu Háskólans á Akureyri um löggæslu og samfélagið.
Í samtali við mbl.is segir Jóhann að stofnunin hafi viljað fylgja eftir því sem kom fram á ráðstefnunni og einnig vekja athygli á hlutverki sínu og þeim störfum sem starfsfólk Fiskistofu sinnir í oft mjög flóknum aðstæðum.
Eftirlitsmenn Fiskistofu á vettvangi voru 19 bæði árin 2023 og 2024. Eftirlitsmönnum er ætlað að hafa eftirlit með reglum sem snúa að veiðum, vigtun, skráningu og meðferð afla og afurða. Fiskistofa kemur að sögn Jóhanns að 37.500 löndunum á ári í 60 höfnum. Segir hann stofnunina í raun reka fiskveiðistjórnunarkerfið og Fiskistofa og eftirlit hennar sé mikilvægur hlekkur svo kerfið sé trúverðugt.
Haft áhrif utan vinnu
Enn fremur sýna niðurstöðurnar að upplifun veiðieftirlitsmannanna hefur verið við aðstæður sem þeir komast ekki úr, t.d. um borð í skipi eða við eftirlit þar sem krafist er stöðugrar viðveru. Þeir hafa tilkynnt um erfið atvik á vettvangi og mál hafa legið á þeim persónulega og haft áhrif á þá utan vinnu.
Veiðieftirlitsmönnum finnst vanta farveg til að deila eða tjá sig um erfiða reynslu og að bregðast hefði mátt betur við þegar tilkynnt hefur verið um erfið atvik.
Þeir voru spurðir hvers konar úrræðum þeir beiti þegar þeir mæta erfiðum aðstæðum á vettvangi. Sögðust þeir allir beita hyggjuviti og/eða persónulegri reynslu og næmni.
Skortir frekar sektarheimildir
Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafa ekki valdheimildir en þótt þeir hafi ekki beinar valdheimildir segir Jóhann þá hafa eftirlitsheimildir sem hægt sé að beita með íþyngjandi hætti.
Að lokinni framsögu Jóhanns gafst gestum í sal tækifæri á að spyrja spurninga og sneri fyrsta spurningin einmitt að valdheimildum. Dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, spurði hvort Fiskistofa hefði sóst eftir valdheimildum fyrir sína eftirlitsmenn.
Jóhann sagði Fiskistofu sem stofnun í raun ekki hafa skoðun á því. Sagði hann frá umræðu sem hafi verið uppi um sameiningu Fiskistofu við Landhelgisgæsluna og að kannski mætti auka samstarfið og að Fiskistofa fengi meiri stuðning frá gæslunni.
Sagði Jóhann meðal annars frá því að Fiskistofa hefði samið við Landhelgisgæsluna um að hún sæki veiðieftirlitsmenn ef upp koma aðstæður þannig að þeir upplifi sig óörugga um borð.
„Kannski skortir frekar sektarheimildir,“ sagði Jóhann.
Jóhann segir að innan Fiskistofu hafi verið talin ástæða til að reyna að fá einhverja mynd af því ástandi sem veiðieftirlitsmenn hafi upplifað á vettvangi.
„Við heyrum auðvitað eitthvað á kaffistofunni en þegar þetta er komið svona svart á hvítu, þá er þetta einhvern veginn staðfest,“ segir Jóhann og vísar þar til niðurstaðna frumathugunarinnar.
Framkvæmd frumathugunarinnar
Tekin voru viðtöl við 13 eftirlitsmenn sem byggð voru á stöðluðum spurningum sem öllum fylgdu þrjár undirspurningar:
- Hefur þú lent í stöðu í vinnunni, þar sem talað er niður til þín?
Allir 13 veiðieftirlitsmenn sögðu að lítið hefði verið gert úr þeirra störfum á vettvangi. Allir sögðu þeir að á vettvangi hefði verið gert lítið úr Fiskistofu eða samstarfsmönnum þeirra og 10 af 13 eða um 77% sögðu að lítið hefði verið gert úr þeim persónulega.
- Hefur þú verið útilokaður í vinnu á vettvangi eða þér mismunað á vettvangi?
Tólf af 13 eftirlitsmönnum, eða 92%, hafa upplifað sig óvelkomna á vettvangi, 11 af 13, eða tæp 85%, hafa upplifað að þeim hafi verið sýnt fálæti og þeir verið útilokaðir eða einangraðir.
- Hefur verið veist að þér persónulega með orðum og athöfnum á vettvangi?
Ellefu af 13 eftirlitsmönnum, eða tæp 85%, sögðust hafa setið undir reiðilestri og dylgjum, 9 af 13 eftirlitsmönnum eða 69% hafa upplifað ögrun, ógnun eða hótun á vettvangi og 4 af 13 eða 31% hefur verið hótað líkamsmeiðingum.
- Hefur þú upplifað þrúgun eða lent í ofbeldi á vettvangi?
Tólf af 13, eða 92%, hafa upplifað þrúgun eða spennu á vettvangi sem og andlegt ofbeldi. Enginn hefur upplifað líkamlegt ofbeldi.
Skemmst er þó að minnast þess er þremur byssuskotum var skotið á dróna sem eftirlitsmaður Fiskistofu notaðist við er hann sinnti eftirliti í nóvember á síðasta ári. Verknaður sem gæti fallið undir brot gegn valdstjórninni. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu er það mál í eðlilegu ferli.
Undantekning en ekki regla
Jóhann tekur fram að eftirlitsmenn hafi allir talað um í viðtölunum að þau tilvik sem varpað er ljósi á í frumathuguninni séu undantekningartilvik.
Segir hann sína upplifun af þessu ástandi þá að kannski hafi þetta bara alltaf verið svona eða a.m.k. gerst yfir langan tíma og viðhorf skipstjóra, sjómanna og annarra á vettvangi til eftirlitsmanna hafi verið látið óátalið.
„Ef eitthvað er ekki fordæmt opinberlega, þá færast línurnar. Ég held að þetta vilji í raun enginn og þetta er ekki vinnuumhverfi sem neinn ætti að sætta sig við.“
Hvað þýðir að vera hótað að vera hent í sjóinn?
Jóhann ræðir aðstæður eftirlitsmanna sem eru einir úti á rúmsjó í allt frá nokkra daga og alveg upp í mánuð eða lengur meðal heillar áhafnar manna þar sem þessi neikvæðu viðhorf kannski ríkja eða á minni bátum þar sem þau ríkja ekki síður.
„Hvað þýðir að vera hótað að vera hent í sjóinn? Það getur þýtt bara svona, „æi þegiðu“ en einhverjir hafa upplifað slíkt bara mjög sterkt.
Það er auðvitað ekkert annað en morðhótun og upplifunin getur verið mjög raunveruleg fyrir marga,“ segir Jóhann.
Hann segir augljóst að menn hafi upplifað að þeim hafi verið ógnað í orði og athöfnum og í aðstæðum sem þeir komast ekki úr.
„Einir á meðal fjölda manna sem beina spjótum sínum að þeim,“ segir Jóhann og gefur í skyn að það geti varla verið þægilegt.
Jóhann segir að það þurfi að taka samtalið og það sé það sem verið sé að gera nú.
„Þetta er eflaust eitthvað sem við hjá Fiskistofu getum skoðað betur hjá okkur. Í eðli sínu er eftirlit eitthvað sem menn vilja kannski ekki að haft sé með þeim en enginn vill koma nálægt fiskveiðistjórnunarkerfi ef ekkert eftirlit er haft með því.“



