Opnunarhátíð Iceland Airwaves var haldin á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í morgun, rétt eins og undanfarin ár.
Halla Tómasdóttir forseti setti hátíðina og í kjölfarið stigu þær Bríet og GDRN á stokk. Halla lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi samverustunda mismunandi kynslóða og hvatti fólk til að vera ekki strokufangar, þ.e. að strjúka símunum sínum stanslaust.
Að sögn Péturs Þorsteinssonar, æskulýðsleiðtoga á Grund, gengu tónleikarnir vel fyrir sig og sungu þær Bríet og GDRN sig inn í hjörtu alþýðunnar. Sú fyrrnefnda söng hið vinsæla lag sitt Esjan og GDRN flutti Parísarhjól og fékk tónleikagesti í lið með sér.
Auk íbúa Grundar við Hringbraut hlýddu á tónleikana leikskólabörn frá Tjarnarborg og erlendir gestir Airwaves, bætir Pétur við.












