Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður Íslands, hefur staðið sig frábærlega með Inter síðan hún kom þangað á láni frá Þýskalandsmeisturum Bayern München. Svo vel hefur hún spilað að Englandsmeistarar Chelsea eru meðal þeirra liða sem vilja fá markvörðinn í sínar raðir.
Mbl.is greinir frá því að góð frammistaða Cecilíu Ránar í Serie A – þar sem hún hefur aðeins fengið á sig sex mörk í 11 leikjum – hafi vakið athygli bæði innan Ítalíu sem og á Englandi og Spáni.
Í frétt mbl.is kemur fram að Þýskalandsmeistarar Bayern vilji framlengja samning 21 árs gamla markvarðarins en það stefni hins vegar í að hún geti valið úr tilboðum. Juventus, sem trónir á toppi Serie A, vill fá hana í sínar raðir.
Sömu sögu er að segja af Englandsmeisturum Chelsea, Manchester United og Real Madríd. Það er því ljóst að ef Cecilía Rán ákveður að framlengja ekki samning sinn í Þýskalandi þá getur hún valið úr tilboðum.
Cecilía Rán hefur spilað 13 A-landsleiki fyrir Ísland og haldið níu sinnum hreinu. Leikirnir væru án efa orðnir fleiri hefði hún ekki meiðst illa og misst af öllu tímabilinu 2023-24. Hún stefnir nú á að vinna sæti sitt til baka áður en Evrópumótið sem fram fer í Sviss næsta sumar hefst.